Aðsend grein - HSU
Ég heiti Aðalbjörg Halldórsdóttir, er 29 ára gömul og bý í Þorlákshöfn. Þegar ég ákvað að fara í læknaritaranám vissi ég ekki alveg hvað ég var að fara út í. Ég hafði unnið á heilsugæslu og fylgst með læknaritaranum að störfum þar og áhuginn byrjaði að kvikna þar hægt og rólega. Ég fór síðan að spjalla við Þóru (læknaritarann sem ég vann með), skoða aðeins á netinu og lesa mér til og um leið fann ég að þetta væri eitthvað sem ég gæti haft gaman af. Ég var pínu hrædd í byrjun við að skrá mig og sagði við frænku mína: „Ég kann ekkert svona, ég get ekki farið að skrá mig í svona nám!“. Þá sagði frænka mín: „Aðalbjörg mín, þú ferð ekki í nám af því þú kannt allt nú þegar, þú ferð í nám til þess að læra!“ Þessi athugasemd sparkaði algjörlega í mig vitinu og ég skráði mig því í fjarnám í læknaritun við Heilbrigðisskólann í FÁ þennan sama dag og þar með var fjörið byrjað. Ég byrjaði námið haustið 2013. Þetta nám er mjög skemmtilegt og krefjandi með alls konar krefjandi áföngum, auðvitað mis skemmtilegum áföngum en þannig er það með allt nám.
Ég byrjaði að vinna sem læknaritaranemi við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi sumarið 2016. Fyrstu vikurnar voru krefjandi en jafnframt mjög skemmtilegar, þarna fann ég að ég hafði valið réttu brautina fyrir mig. Ég fékk síðan að taka verknámið við HSU vorið 2017 sem mér fannst mjög mikill kostur þar sem að gott var að geta tekið verknámið á mínum eigin vinnustað þar sem ég hafði kynnst verklaginu og fólkinu. Hjá okkur læknariturum á HSU er verkunum skipt upp í stöðvakerfi og finnst mér það mjög mikill kostur því þar með verður starfið fjölbreytt. Fjórar stöðvar ganga á milli okkar vikulega þar sem hver og ein stöð inniheldur mismunandi verk. Mér finnst það kostur að vera ekki alltaf að gera það sama því það brýtur upp daginn; tíminn líður þegar það er gaman. Í náminu og síðan ég byrjaði á HSU hefur mér alltaf fundist skrifin langskemmtilegust. Það að skrifa fyrir læknana finnst mér alltaf gaman því það er krefjandi og ég læri alltaf eitthvað nýtt þar sem við skrifum bæði fyrir heimilislæknana og sérfræðingana. Auðvitað er MIKLU MIKLU meira fólgið í þessu starfi en ég myndi segja að þetta væri mitt uppáhalds af mörgu skemmtilegu í læknaritun.
Nú er verið að vinna að breytingum í læknaritunarnáminu þar sem verið er að færa þetta á háskólastig. Háskóli Íslands hefur fengið styrk til að þróa námsbrautir á fagháskólastigi. Ein af þessum námsbrautum er nám fyrir læknaritara, þ.e. nám í heilbrigðisgagnafræði. Læknariturum sem eru nú þegar útskrifaðir stendur þá til boða að fara í einhvern hluta námsins. Ég mun klárlega nýta mér það og hlakka ég til framhaldsins. Þetta er flott þróun og vona ég að þetta verði til þess að fjölga læknariturum.
Eftir fjögur ár í fjarnámi verð ég nú að viðurkenna að það var mjög góð tilfinning að klára þetta loksins og setja upp húfuna, en ég útskrifaðist 21. Desember sl. Þann 1. Janúar sl. fékk ég síðan fastráðningu sem læknaritari við HSU og gæti ég ekki verið meira glöð með það. Ég vinn með fimm yndislegum og skemmtilegum konum, mér líður mjög vel í vinnunni og ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi. Ég verð að viðurkenna að það er skrítið að venja sig af því að kalla sig “LÆKNARITARANEMI“ í það að kalla sjálfa sig “LÆKNARITARI“ því það orð var eitthvað svo fjarri mér í langan tíma. En læknaritari er ég orðin og það er ótrúlega gaman að geta sagt að mér finnist gaman að mæta í vinnuna á hverjum degi.
til baka