Opið bréf vegna skriffinnsku lækna

Opið bréf vegna skriffinnsku lækna

Ef starfsheitinu heimilislæknir er flett upp í starfsleyfaskrá Embætti landlæknis birtast 336 skráðir með starfsleyfi til heimilislækninga. Þann 1. janúar 2023 var mannfjöldi á Íslandi 387.758 samkvæmt Hagstofu Íslands. Það má setja upp ýmis reikningsdæmi hér en við sjáum svart á hvítu að rétt rúmlega 300 heimilislæknar eru hér að sinna upp undir 400 þúsund manns. Oft hefur verið bent á þetta ósamræmi í tölum og það er ekkert leyndarmál að hingað vantar heimilislækna en álagið hefur verið gríðarlegt á heilbrigðisstofnanir undanfarin misseri og sérstaklega í kjölfar COVID-19 faraldursins. Það er því með öllu óskiljanlegt að heilbrigðisyfirvöld hafi leyft skriffinnsku og pappírsvinnu að taka yfir störf lækna sem þegar höfðu takmarkaðan tíma til að sinna fólki sem þarfnast aðstoðar og eiga rétt á góðri heilbrigðisþjónustu. 

Samkvæmt sömu skrá Embættis landlæknis eru 688 með starfsleyfi sem heilbrigðisgagnafræðingur. Það eru ekki margir sem vita hvað felst í starfslýsingu heilbrigðisgagnafræðings en stéttin er ein af þeim sem vinna á bakvið tjöldin svo kerfið rúlli áfram. Starfið krefst menntunar frá heilbrigðisvísindasviði HÍ og eru helstu viðfangsefni í náminu persónuverndarlögin, upplýsinga- og skjalastjórnun, líffærafræði, lyfjafræði, sjúkdómafræði, þekkingarstjórnun og síðast en ekki síst flokkun og kóðun sjúkragagna. Heilbrigðisgagnafræðingar búa því yfir sérþekkingu á lagaumhverfi skjalastjórnunar og sjúkraskráa, meðferð persónuupplýsinga, vinnu í sjúkraskrárkerfum og réttindum sjúklinga. Í fyrri tíð var starfsheitið læknaritari en hefur umfang þess og eðli tekið stakkaskiptum undanfarin ár og er nú mun víðtækara og þverfaglegra en áður. Heilbrigðisgagnafræðingar starfa í allskonar verkefnum innan heilbrigðisgeirans, allt frá þróun rafrænna sjúkraskrárkerfa til verkefnastjórnunar og til daglegs skipulags og skjalavinnslu.

Af hverju eru þá ekki heilbrigðisgagnafræðingar að sinna þessari skriffinnsku og pappírsvinnu sem er að sliga lækna sérstaklega á heilsugæslustöðvum? Á sumum stöðum hefur verið mótstaða við að ráða inn faglærða heilbrigðisgagnafræðinga eða þeir settir í verkefni sem ekki eiga við þeirra fagsvið því lítið fjármagn er til staðar. Í kjölfarið fellur því öll ábyrgð á pappírsvinnu á læknana, því ekki má hver sem er meðhöndla sjúkraskrárgögn – til þess þarf sérstök leyfi og ábyrgð sem fylgir ákveðnum starfsheitum. Einnig eru kröfur og reglugerðir Sjúkratrygginga Íslands ekki til þess gerðar að veita heilbrigðisgagnafræðingum leyfi til að sinna sömu skriffinnsku og læknarnir gera. Vissulega eru hlutir sem aðeins læknar geta svarað fyrir eða skilað af sér en í daglegri vinnu er taumurinn of stuttur fyrir heilbrigðisgagnafræðinga til að taka að mestu yfir skjalavinnslu og skriffinnsku, jafnvel þótt viljinn sé fyrir hendi.

Stjórn félags heilbrigðisgagnafræðinga á Íslandi skorar hér með á allar heilbrigðisstofnanir á Íslandi að kanna stöðu mála innan sinna stofnana og sjá hvernig hægt væri að nýta heilbrigðisgagnafræðinga betur og/eða ráða inn heilbrigðisgagnafræðinga til að létta skriffinnsku af læknum sem hafa þá meiri tíma til að sinna sjúklingum, þó svo að endanleg ábyrgð verði áfram í höndum lækna.

Við hvetjum yfirmenn til að taka samtalið við lækna og heilbrigðisgagnafræðinga um hvernig væri hægt að flýta fyrir og einfalda skriffinnskuna og verklagið, hvernig er best að verkaskipta og hvað þarf til að skriffinnskan sökkvi ekki tilganginum; að veita góða heilbrigðisþjónustu.

Við lýsum yfir stuðning við heimilislækna sem og aðra lækna  sem þurfa að láta pappírsvinnu ganga fyrir skjólstæðingum. Við hvetjum til samtals um hvernig er best hægt að nýta starfskrafta hverrar heilbrigðisstéttar með hag sjúklinga að leiðarljósi og að leitað sé lausna með hagsmuni bæði sjúklinga og starfsfólks í huga.

Einnig skorum við á SÍ að endurskoða eigið verklag og kröfur gagnvart tilvísunum, vottorðum og skýrslum áður en dagleg pappírsvinna bitnar enn fremur á gæðum þjónustunnar og skerðir rétt einstaklingsins til að fá viðunandi heilbrigðisþjónustu eða rétt þeirra til að leita bóta.

Fyrir hönd stjórnar Félags Heilbrigðisgagnafræðinga á Íslandi,
Veronika Rut, formaður

til baka