Lög

Lög Félags heilbrigðisgagnafræðinga

1. gr. 

Félagið heitir Félag heilbrigðisgagnafræðinga.
Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
 
2. gr. 
Tilgangur félagsins er að efla samvinnu og samstarf félagsmanna og bæta þekkingu og hag þeirra eftir því sem við verður komið.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því m.a.: 
  • Að allir heilbrigðisgagnafræðingar sem fullnægja settum skilyrðum verði félagar í Félagi heilbrigðisgagnafræðinga.
  • Að vernda réttindi félagsmanna og vinna að kjarabótum.
  • Að stuðla að aukinni menntun félagsmanna, framþróun í námsskrá nema í heilbrigðisgagnafræði og tryggja að námið sé ávallt fullnægjandi og í takt við kröfur tímans.
  • Að auka kynni meðal félagsmanna.
 
3. gr.
  1.  Enginn verður sjálfkrafa félagi. Sótt er um inngöngu í félagið til stjórnar þess.
  2. Félagar teljast aðeins með full félagsréttindi hafi þeir greitt félagsgjöld.
  3. Rétt til aðildar að Félagi heilbrigðisgagnafræðinga hafa þeir sem hafa öðlast löggilt starfsleyfi heilbrigðisgagnafræðinga frá Embætti landlæknis.  Auk þess hafa nemar í heilbrigðisgagnafræði rétt til aðildar að HGF.
  4. Nemar í heilbrigðisgagnafræði greiði til HGF hálft félagsgjald, hafa ekki full félagsréttindi en hafa málfrelsi á fundum félagsins. Þeir hafa ekki atkvæðisrétt og gegna ekki trúnaðarstörfum fyrir félagið. Þegar starfsleyfið er fengið skal því skilað til stjórnar og verður þá heilbrigðisgagnafræðingurinn fullgildur félagi.
  5. Úrsögn úr félaginu skal fara fram með skriflegri tilkynningu til stjórnar og öðlast hún þegar gildi. 
 
4.gr.
Stjórn félagsins skipa 7 félagsmenn:  Formaður, ritari, gjaldkeri, 2 meðstjórnendur og 2 fulltrúar nefnda. Formaður skal kosinn til eins árs í senn.  Aðrir í stjórn skulu kosnir til 2ja ára, þrír árlega og gangi þá þrír úr stjórn. Skiptir stjórnin með sér verkum.
Skoðunarmenn reikninga skulu vera tveir.
Kjör stjórnar og skoðunarmanna reikninga skal fara fram með handauppréttingu á aðalfundi.  Ef tilnefndir eru jafn margir og kjósa skal teljast þeir réttkjörnir án atkvæðagreiðslu.
 
5. gr.
Stjórn félagsins hefur æðsta vald í málefnum þess milli aðalfunda.  Stjórnin skal framkvæma ákvarðanir aðalfunda og vera málsvari félagsins út á við.  Stjórn félagsins skal boða aðalfundi og félagsfundi. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar mætir.
Formaður skal stýra fundum félagsins öðrum en aðalfundum en þá skal skipaður sérstakur fundarstjóri.  Heimilt er honum þó að skipa sérstakan fundarstjóra á öðrum fundum.  Fundarstjóri úrskurðar ágreining um fundarsköp.
Ritari skal halda gerðarbók um alla aðal-, félags- og stjórnarfundi.
Gjaldkeri annast sjóðgæslu félagsins og hefur umsjón með fjármálum þess.
 
6. gr.
    1. Heimilt er með samþykki aðalfundar að stofna landshlutadeildir innan félagsins. Meginmarkmið þeirra skal vera: 
          a)  Að efla kynni heilbrigðisgagnafræðinga í viðkomandi landshluta.
          b)  Að stuðla að fræðslustarfsemi á sínu svæði. 
    2. Deildir eigi rétt til ¼ hluta greiddra félagsgjalda sinna meðlima, enda geri fulltrúi grein fyrir því á aðalfundi hvernig fénu hafi verið varið.
 
7. gr.
Aðalfund skal halda fyrir lok maímánaðar ár hvert.  Til fundarins skal boða skriflega með a.m.k. 3 vikna fyrirvara.  Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað.  
Dagskrá hans skal vera sem hér segir: 
  1. Skýrsla stjórnar félagsins.
  2. Lagðir fram og bornir upp til samþykktar endurskoðaðir reikningar félagsins.
  3. Lagðir fram og bornir upp til samþykktar endurskoðaðir reikningar deilda.
  4. Skýrslur nefnda og deilda
  5. Lagabreytingar
  6. Ákvörðun félagsgjalda
  7. Kosning formanns (sbr. 5. gr.)
  8. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga (sbr. 5. gr.)
  9. Kosning nefnda (sbr. 11. gr.)
  10. Önnur mál
 
8. gr.
Stjórn félagsins boðar til funda í félaginu þegar hún sér ástæðu til.  Stjórn félagsins er skylt að boða félagsfund ef a.m.k. ¼ félagsmanna krefjast þess, enda tilgreini þeir fundarefni.
 
9. gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
 
10. gr.
Ákvörðun um félagsgjald gildir fyrir almanaksárið (sbr. 9. gr.)
  • Hafi félagi ekki greitt félagsgjald sitt fyrir 1. mars missir hann réttindi sín sem fullgildur félagi (sbr. 3.gr. 4.tl.) en hefur hins vegar rétt til að sitja fundi félagsins.
  • Þegar félagi sem misst hefur réttindi sem fullgildur félagi hefur ekki greitt félagsgjald sitt í samtals tvö ár fellur hann sjálfkrafa af félagaskrá en endurheimtir réttindi sín er hann hefur gert skil á ógreiddum félagsgjöldum.
 
11. gr.
Á aðalfundum er heimilt að kjósa nefndir til að fjalla um ákveðin málefni í samráði við stjórn félagsins.  Fulltrúar í slíkum nefndum eru ábyrgir gagnvart stjórn félagsins.  Starfsreglur nefnda skulu samþykktar af stjórn.  Stjórninni er einnig heimilt að kveðja félagsmenn, einn eða fleiri, sér til fulltingis í einstökum málum.
 
12. gr.
Komi fram tillaga um að leggja félagið niður skal slík tillaga studd af a.m.k. fjórðungi félagsmanna.  Tillögunni skal beint til stjórnar sem skal boða til almenns félagsfundar með sama hætti og boðað er til aðalfundar sbr. 6. gr.  Á þeim fundi skal tillagan kynnt og greidd um hana atkvæði.  Tillagan telst aðeins samþykkt ef hún hlýtur 2/3 greiddra atkvæða.  Verði félagið leyst upp ber fundinum að ráðstafa eignum félagsins og skjölum til varðveislu.
 
13. gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda sé breytingin samþykkt með 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna.  Tillögur um lagabreytingar þurfa að berast til stjórnar a.m.k. tveim vikum fyrir aðalfund.
 
14. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
 
Samþykkt á aðalfundi 1974.
 Endurskoðun laga samþykkt á aðalfundi í maí 1991.
 Endurskoðun laga samþykkt á aðalfundi 1. júní 1995.
 Endurskoðun laga samþykkt á aðalfundi 8. maí 1999.
 Endurskoðun laga samþykkt á aðalfundi 20. apríl 2002.
 Endurskoðun laga samþykkt á aðalfundi 31. mars 2017
 Endurskoðun laga samþykkt á aðalfundi 27. ágúst 2019

 Endurskoðun laga samþykkt á aðalfundi 18. september 2021